Veitendur stafrænnar þjónustu

Veitendur stafrænnar þjónustu eru skilgreindir í lögunum en til þeirra teljast lögaðilar með höfuðstöðvar, þ.e. aðalskrifstofu eða staðfestu hérlendis sem starfrækja netmarkað, leitarvél á netinu eða skýjavinnsluþjónustu. Þó eru undanskildir þeir aðilar sem teljast til örfélaga eins og skilgreind eru í 11. tölul. 2. gr. laga nr. 17/2006 um ársreikninga. 


Netmarkaður: Netmarkaður er sú tegund stafrænnar þjónustu sem gerir mörgum og mismunandi fyrirtækjum kleift að bjóða fram vöru og þjónustu, og eiga viðskipti við neytendur, á netinu. Til að teljast sem netmarkaður í skilningi laganna þurfa viðskiptin sjálf að eiga sér stað á netmarkaðnum sjálfum, þ.e.a.s tekin sé lokaákvörðun um kaup eða sölu og frágang samnings á umræddu svæði. Í framkvæmd þýðir þetta að hugtakið netmarkaður nær ekki til vefsíðna þar sem neytendum er einungis gert kleift að leita uppi og bera saman verð og/eða þjónustu frá mismunandi aðilum og þeim svo beint inn á vefsíður viðkomandi til að ganga frá viðskiptunum. Hugtakið nær heldur ekki til sölusíðna einstaka heildsala eða annarra söluaðila sem selja vörur sínar beint til neytenda.

Leitarvélar á netinu: Leitarvél á netinu er sú tegund stafrænnar þjónustu sem gerir notendum kleift að framkvæma leit á öllum vefsetrum eða vefsetrum á ákveðnu tungumáli á grundvelli fyrirspurnar. Þetta þýðir að leitarvélar sem einungis leita innan tiltekinnar vefsíðu falla ekki hér undir né vefsíður sem framkvæma verðsamanburð.

Skýjavinnsluþjónusta: Skýjavinnsluþjónusta er stafræn þjónusta sem veitir aðgang að skalanlegum og sveigjanlegum brunni tölvunargetu sem hægt er að deila. Um er að ræða þjónustu sem að notar sameiginlega tölvunargetu til að vinna gögn á grundvelli fyrirspurnar þar um. Í dag eru þrjár megintegundir fyrir skýjavinnsluþjónustu: 

  1. þjónustan sem notandi hefur aðgang að samanstendur af grunninnviði (e. Infrastructure as a Service – IaaS) – þ.e. aðgangur að tölvunargetu í formi vélbúnaðar, nets og hýsingarþjónustu sem getur keyrt þjóna, geymslupláss, net og stýrikerfi.
  2. þjónustan felur í sér aðgengi að ákveðnum verkvangi (e. Platform as a Service - PaaS) – þ.e. nettengdur verkvangur sem gerir fyrirtækjum kleift að keyra forrit, þróa og prófa forrit.
  3. þjónustan sem notendur hafa aðgang að er forrit eða hugbúnaður sem veitt er á Internetinu (e. Software as a Service – SaaS).


 Fjarskiptastofa sinnir eftirliti með veitendum stafrænnar þjónustu.