Rekstraraðilar nauðsynlegrar þjónustu

Rekstraraðilar nauðsynlegrar þjónustu eru þeir aðilar sem starfa innan þeirra sjö þjónustusviða sem lögin taka til og veita þjónustu sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

 1.  þjónustan er nauðsynleg fyrir viðhald mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi,
 2. veiting þjónustunnar eru háð net- og upplýsingakerfum og
 3. atvik hefðu verulega skerðandi áhrif á veitingu þjónustunnar

Það er svo í höndum ráðherra að mæla nánar um þau viðmið sem ákvarða hvort að viðkomandi félag veiti þjónustu sem er nauðsynleg fyrir viðhald mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi. Viðmiðin byggja á tillögu viðkomandi eftirlitsstjórnvalds og eru ólík eftir því um hvaða svið ræðir.

Hvað telst nauðsynleg þjónusta má finna í 4. – 10. gr. reglugerðar nr. 866/2020 um öryggi net- og upplýsingakerfa rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, sbr. eftirfarandi:

Nauðsynleg þjónusta á sviði bankastarfsemi 

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði banka er átt við þann hluta þjónustu lánastofnunar sem snýr að greiðsluþjónustu, skv. 4. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Þá er það einnig skilyrði að veitandi þjónustunnar sé jafnframt kerfis­lega mikilvægt fjármálafyrirtæki samkvæmt ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands. 

Nauðsynleg þjónusta á sviði innviða fjármálamarkaða

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði innviða fjármálamarkaða er átt við rekstraraðila skipulegra verðbréfamarkaða og markaðstorgs fjármálagerninga samkvæmt skilgreiningu laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og miðlæga mótaðila samkvæmt skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 648/2012, sem lögfest er með lögum nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.

Nauðsynleg þjónusta á sviði flutninga

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði flutninga er átt við:

 1. veitingu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar;
 2. rekstur alþjóðaflugvalla;
 3. þjónustu flutningsaðila með flugrekstrarleyfi útgefið hér á landi sem flytur fleiri en 25% flugfarþega til og frá landinu á ári;
 4. þjónustu flutningsaðila með flugrekstrarleyfi útgefið hér á landi sem flytur meira en 25% af flugfrakt til og frá landinu á ári;
 5. veitingu upplýsingaþjónustu vegna siglinga;
 6. þjónustu útgerðarfélaga samkvæmt skilgreiningu í viðauka I við reglugerð (EB) nr. 725/2004 um að efla vernd skipa og hafnaraðstöðu sem sjá um flutning meira en 25% af sjó­flutningum til og frá landinu, sé útgerðarfélag skráð hér á landi. Ekki fellur hér undir inn­flutningur á olíu, né hrávöru til framleiðslu í stóriðju;
 7. þjónustu í tengslum við lestun og losun farms á milli hafnar og flutningsaðila, sbr. f-lið, þar sem farmflutningar eru umfram 25% af öllum sjóflutningum til og frá landinu að undan­skildum flutningum á olíuvörum og hrávöru til stóriðju;
 8. veitingu upplýsingaþjónustu vegna umferðar á vegum;
 9. móttöku neyðarboða vegna umferðar á vegum. 

Telji aðilar sem vísað er til í 3., 4.,  6. og 7. liðum 1. mgr. sig ekki falla undir ákvæði reglugerðar þessarar þar sem umfang þjónustu þeirra á ári sé undir þeim mörkum sem kveðið er á um, skulu þeir að kröfu Samgöngustofu sýna fram á að svo sé. 

Heilbrigðisþjónusta

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu er átt við:

 1. bráða- og slysamóttöku;
 2. heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu;
 3. heilbrigðisstofnanir og starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna með sjúkrarýmum;
 4. heimahjúkrun;
 5. sjúkraflutninga;
 6. lyfjabúðir þar sem að minnsta kosti 27.500 lyfjaávísanir eru afgreiddar á ári;
 7. lyfjabúðir utan höfuðborgarsvæðisins þar sem að minnsta kosti 10.000 lyfjaávísanir eru afgreiddar á ári;
 8. lyfjabúðir og lyfsölur sem einar þjóna tilteknum byggðarlögum og
 9. lyfjaheildsölur (birgðastöðvar fyrir lyf); 

sem falla undir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lyfjalög nr. 100/2020 sem taka gildi 1. janúar 2021 og lyfjalög nr. 93/1994 fram að þeim tíma.

Nauðsynleg þjónusta á sviði vatnsveitna

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði vatns­veitna er átt við birgja og dreifingaraðila neysluvatns sem þjónusta 5.000 notendur eða fleiri. 

Nauðsynleg þjónusta á sviði stafrænna grunnvirkja

Með þjónustu sem skilgreind er sem mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg starfsemi á sviði staf­rænna grunnvirkja er átt við: 

 1. rekstraraðila tengi- og skiptipunkta þar sem árleg markaðshlutdeild hér á landi er 50% eða meiri og ekki er til staðar fullnægjandi staðganga fyrir þá þjónustu sem veitt er;
 2. rekstraraðila lénsheitakerfa ef sami rekstraraðili rekur:
   - nafnaþjóna (e. resolvers) sem fá samtals að meðaltali yfir 8.000.000 fyrirspurnir á hverjum sólarhring síðasta almanaksár; eða
   - sannvottunar nafnaþjóna (e. authoritative name servers) sem geyma grunn­upplýs­ingar um vistfang í IP-samskiptareglunum fyrir samtals yfir 1.200 léns­heiti (e. domain) í lok hvers árs;
 3. rekstraraðila sem sinnir skráningu landshöfuðléna ásamt nafnaþjónustu fyrir þau.